154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:01]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna og í rauninni fagna ég þessari umræðu vegna þess að hér kristallast mjög skýr pólitískur ágreiningur um það hvernig við horfum á samfélagið og hagkerfið. Jafnaðarfólk skilur samhengi vinnumarkaðar, fyrirtækja og ríkisins, áttar sig á því að það er heldur ekki gott fyrir fyrirtækin í landinu ef við lendum í vítahring verðbólgu og launahækkana. Það er það sem hefur gerst með litlu fyrirtækin hér í landinu, smærri fyrirtækin sem reka sig með íslenskt vinnuafl og geta ekki úthýst starfsmönnum eða starfsmannakostnaði eða þess háttar. Þegar kjarabætur hafa ekki verið fjármagnaðar, sem hafa komið til þess að styðja við vinnumarkaðinn vegna þess að velferðarkerfið er ekki nógu sterkt, þá hefur það bara lent á fyrirtækjunum hvort sem er. Ég hef ekki áhyggjur af því að það að við hækkum fjármagnstekjuskattinn upp í 25%, sem gerir það samt að verkum að efsta stigið er ekki að fylgja launaskattinum, sem gerir það að verkum að það eru bara efstu tekjuhæstu 10% sem þurfa að borga það, dragi þrótt úr kerfinu. Ég hef frekar áhyggjur af því, miðað við þessar launafreku atvinnugreinar sem við erum að halda uppi, vinnuaflsfrekar greinar sem við erum öll meðvituð um að reiða sig á mikinn mannafla, (Forseti hringir.) að ef við ætlum að halda áfram í þessum vítahring launahækkana og verðbólgu þá lendi fyrirtækin fyrst í vanda.